Úr aðalnámskrá tónlistarskóla:

Mennta- og menningarhlutverk tónlistarskóla er að

veita öllum, sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun
skapa nemendum tækifæri til tónlistarflutnings, jafnt innan skóla sem utan
FRÉTTIR 2004

 

Fréttir

31. janúar 2004

Tónleikaröð kennara: Tvíblöðungar og píanó

Þriðju tónleikarnir í Tónleikaröð kennara Tónlistarskóla Kópavogs verða haldnir í Salnum þriðjudaginn 10. febrúar kl. 20.00. Þá koma fram Eydís Franzdóttir óbóleikari, Unnur Fadila Vilhelmsdóttir píanóleikari og Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari.

Efnisskrá

  • Petr Eben: Tónlist (1970) fyrir óbó, fagott og píanó
  • Jean Francaix: Tríó (1994) fyrir óbó, fagott og píanó
    1. Adagio-Allegro moderato
    2. Scherzo
    3. Andante
    4. Finale
  • Sveinn Lúðvík Björnsson: Í svefnrofadraumi (2003)
  • Francis Poulenc: Tríó (1926) fyrir óbó fagott og píanó
    1. Presto
    2. Andante
    3. Rondo

Yfirskrift tónleikanna "Tvíblöðungar og píanó" er til komin af því að óbó og fagott tilheyra fjölskyldu tvíblaða-blásturshljóðfæra, þ.e. tónn þeirra myndast þegar blásið er í tvöfalt reyrblað. Klarinettið og saxófónninn hafa hins vegar einfalt blað og teljast því ekki til tvíblöðunga. Flestir þekkja píanóið og óbóið vel en fagottið kannski síður. Fagottið er bassahljóðfæri tréblásturshljóðfærafjölskyldunnar og nær tónsvið þess niður á kontra B ( ,B) og alla leið upp á e''. Tónninn er mjúkur líkt og mannsröddin, en einnig getur það leikið af mikilli snerpu og þykir þá jafnvel svolítið fyndið. Tónlistarskólinn á eitt fagott sem hefur ekki verið notað í nokkur ár. Ef einhvern langar að prófa ætti að vera hægt að koma því við.

Um tónskáldin og verkin

Petr Eben (f. 1929) er eitt helsta núlifandi tónskáld Tékka. Hann stundaði nám í píanóleik og tónsmíðum við tónlistarháskólann í Prag. Hann hefur samið fjölda tónverka sem hafa verið flutt víða um heim, þar á meðal á tónlistardögum í Dómkirkjunni í Reykjavík en af því tilefni kom Petr Eben til Íslands. Sjálfur er hann bæði píanó-og orgelleikari, auk þess að kenna tónsmíðar og vera stjórnandi tónlistarhátíðarinnar í Prag.

Petr Eben skrifar um verk sitt: 

"Ég skrifaði verkið Tónlist fyrir óbó, fagott og píanó árið 1970 fyrir tónleikaferð um Svíþjóð. Ég valdi að skrifa fyrir óhefðbundnari hljóðfæraskipan en hið klassíska píanótríó (fiðlu, selló og píanó). Mér fannst óbóið og fagottið falla betur að píanóinu heldur en strengjahljóðfærin og reyndi sérstaklega að vinna með einradda samhljóm hljóðfæranna. Þannig blandaði ég saman háum tónum óbósins við háa tóna píanósins, bæði staccato og legato og djúpum tónum fagottsins við bassatóna píanósins á sama hátt. Þetta er andstætt því að skrifa fyrir einleiksrödd með undirleik. Stundum leika blásararnir tveir saman andstæður við tvær raddir í píanóinu sem herma hvor eftir annarri. Verkið var hugsað sem konsertþáttur þar sem einkenni hljóðfæranna væru dregin fram og þess vegna skrifaði ég kadensu fyrir óbóið í upphafi og fagottið í lokin.

Hvað stíl varðar, er verkið "atonalt", þ.e. ekki í ákveðinni tóntegund. Það byrjar með glæsilegu upphafi þar sem unnið er með fimm tónbil sem fara stækkandi, fyrst lítil 2und, svo stór 2und, lítil 3und, stækkuð 4und og loks stór 7und. Þessi röð tónbila er grunnur verksins sem þó er brotinn upp með laglínum þar sem tóntegundum er fylgt og þannig myndaðar tvær víddir í tónlistina. Á þennan hátt öðlast tónlistin aukna spennu. Líklega var það hjarðpípuhljómur blásturshljóðfæranna sem leiddi til þess að ég valdi að nota laglínuna úr jólasálminum, Frá ljósanna hásal, en verkið endar einmitt á niðurlagi sálmsins."

Jean Françaix (1912-1997) stundaði nám við tónlistarskólann í Le Mans í Frakklandi þar sem faðir hans var skólastjóri og móðirin kennari. Ravel sem var fjölskylduvinur, heillaðist af piltinum unga og hvatti hann til frekara náms við Konservatoríið í París þar sem hann nam píanóleik hjá Isidore Philipp og tónsmíðar hjá Nadiu Boulanger. Það var einmitt undir hennar stjórn í París 1934, að Françaix lék einleik í píanókonsert eftir sjálfan sig og vakti verðskuldaða athygli, bæði fyrir tónsmíðina og píanóleikinn. Einkennandi fyrir tónlist Françaix er mikil gleði enda samdi hann ánægjunnar vegna. Eftir Francaix liggur fjöldi verka allt frá einleiksverkum til ópera, en sérlega þó mikill fjöldi kammerverka.

Jean Francaix samdi Tríó fyrir óbó, fagott og píanó að beiðni alþjóðasambands tvíblöðunga (óbó- og fagottleikara) árið 1994 og var verkið frumflutt í Rotterdam það sama ár. Francaix er þekktur fyrir einstaklega skemmtilega tónlist, aðgengilega áheyrnar, en afar snúna í flutningi. Hún inniheldur grípandi laglínur og mjög hraðar hrynbreytingar og er stundum nær því að vera djass-tónlist en klassík. Það leynir sér ekki í tríóinu að Francaix var sjálfur frábær píanóleikari enda er þar að finna hvern fingurbrjótinn af öðrum.

Sveinn Lúðvík Björnsson (f. 1962) lærði tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Atla Heimi Sveinssyni árin 1986-89 og hjá Þorsteini Haukssyni 1990 auk þess að sækja námskeið í Póllandi. Atli Heimir Sveinsson ritar svo um tónsmíðar Sveins Lúðvíks: "Stíll Sveins er tjáningaþrunginn, knappur, markviss og beinskeyttur, alvörugefinn og yfirlætislaus. Verk hans koma frá innstu rótum hjartans og setur hann það eitt á pappírinn sem hann getur staðið við siðferðilega og listrænt. Að baki hverju verki er höfundurinn allur, heiður hans og heiðarleiki." Árið 1997 kom út geisladiskur með verkum Sveins í flutningi Caput-hópsins.

Verkið Í svefnrofadraumi fyrir óbó, fagott og píanó eftir Svein Lúðvík Björnsson er skrifað sérstaklega fyrir tríóið skipað Eydísi, Kristínu Mjöll og Unni. Þetta er einungis annað tríóið fyrir þessa hljóðfæraskipan sem samið er af íslensku tónskáldi en áður hefur Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson skrifað tríó að frumkvæði hópsins.
Eins og nafnið gefur til kynna túlkar Sveinn í verkinu draum milli svefns og vöku. Svefnrofadraumurinn er eins og lífið sem maður hefur ýmist stjórn á eða örlögin ráða ferðinni. Píanóið túlkar haldfestuna við veruleikann með hljómum í upphafi hvers takts. Óbóið og fagottið leika drauminn þar sem enginn fær við neitt ráðið. Þetta verður annar opinber flutningur á verkinu en það var frumflutt af tríóinu á degi tvíblöðunga (óbó- og fagottleikara) í Gerðubergi 18. maí 2003.

Francis Poulenc (1899-1963) var franskur eins og Francaix. Ungur sýndi hann mikla tónlistarhæfileika, bæði við píanóleik og tónsmíðar. Meðal fyrstu tónverka hans voru mjög flóknar preludíur fyrir píanó, þar sem gætti sterkra áhrifa frá Debussy, en Poulenc heillaðist mjög af honum. Poulenc samdi fjöldann allan af tónverkum sem hafa hlotið gífurlegar vinsældir bæði vegna þess hvað gaman er að spila verk hans og hlusta á þau flutt.

Francis Poulenc samdi Tríó fyrir píanó, óbó og fagott árið 1926. Verkið er án efa vinsælasta tríóið fyrir þessa hljóðfæraskipan, enda frábærlega skrifað fyrir hljóðfærin. Það mætti í raun kalla Poulenc meistara fjörsins, því tónlist hans er full af glensi og gríni milli syngjandi fallegra laglína.

Um flytjendur

Tríóið, sem er skipað Eydísi Franzdóttur óbóleikara, Kristínu Mjöll Jakobsdóttur fagottleikara og Unni Fadilu Vilhelmsdóttur píanóleikara, var stofnað í október 1997 og hefur haldið fjölda tónleika víða um Ísland sem og erlendis. Sumarið 1999 var tríóið á tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada, þar sem það lék m.a. tónleika í Wasington D.C., Toronto, Winnipeg og á alþjóðaráðstefnu óbó- og fagottleikara í Madison, Wisconsin. Tríóið hefur einnig komið fram í sjónvarpi og útvarpi.

Eydís Franzdóttir óbóleikari lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1987 og stundaði framhaldsnám í London. Hún lék um skeið með samevrópsku hljómsveitinni Acadya, en var svo ráðin 1. óbóleikari tékknesku útvarpshljóm-sveitarinnar í Pilzen 1992 þar sem hún lék um tveggja ára skeið. Eydís hefur komið fram sem einleikari, með kammerhópum og hljómsveitum víða um Evrópu, Norður-Ameríku og á Íslandi. Hún er m.a. meðlimur í Caput-hópnum, skipuleggjandi og óbóleikari Poulenc-hópsins og kennari við Tónlistarskóla Kópavogs.

Kristín Mjöll Jakobsdóttir nam við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk Mastersprófi frá Yale School of Music vorið 1989. Ennfremur stundaði hún nám við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam og í Cincinnati, Ohio. Árið 1991 var Kristín ráðin til Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Hong Kong og starfaði þar til 1998. Hún flutti aftur til Íslands og hefur starfað m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum kammerhópum.

Unnur Fadila Vilhelmsdóttir lærði píanóleik hjá Málfríði Konráðsdóttur í Barnamúsíkskólanum í Reykjavík og í Tónlistarskólanum í Reykjavík, hjá Halldóri Haraldssyni. Hún lauk píanókennaraprófi 1990 og einleikaraprófi ári síðar. Árið 1991 hóf Unnur framhaldsnám í Cincinnati í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi í píanóleik árið 1997. Eftir að Unnur fluttist heim til Íslands hefur hún tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi bæði sem einleikari og í samleik með öðrum. Nýverið kom út geisladiskur þar sem hún leikur verk eftir Beethoven, Chopin og Prokofiev. Unnur er kennari við Tónlistarskóla Kópavogs.

Aðgangseyrir

Tónlistarskóli Kópavogs vill eindregið hvetja nemendur til að mæta á kennaratónleikana, enda er aðgangur ókeypis fyrir þá, og ekki spillir að sjá aðstandendur og velunnara skólans með í för.

Almennt miðaverð: 1.500 kr.
Eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn: 1.200 kr.
Kennarar Tónlistarskóla Kópavogs: 500 kr. 
Nemendur Tónlistarskóla Kópavogs: Frítt.
Sími í miðasölu er 5 700 400 og er opið virka daga kl. 9.00-16.00 og klst. fyrir tónleika.

 

[ Til baka á Fréttir 2004 ]

 

Tónlistarskóli Kópavogs | Tónlistarhúsi Kópavogs | Hamraborg 6 | 200 Kópavogur | Sími 578 5700 | tonlistarskoli@tonlistarskoli.is