Átján nemendur skólans taka um þessar mundir þátt í
hljómsveitarnámskeiði sem er samstarfsverkefni fjögurra
tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru nemendur í
strengjasveit III ásamt nokkrum nemendum sem leika á
þverflautu, klarínettu og óbó.
Námskeiðið er samstarfsverkefni Tónlistarskóla FÍH,
Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskóla Kópavogs og
Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og er tilgangur þess að
gefa nemendum í mið- og framhaldsnámi kost á þjálfun í að
spila í stórri hljómsveit. Hljómsveitin hefur hlotið nafnið
Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna. Um 70 ungir
tónlistarnemar, flestir á framhaldsskólaaldri, skipa
hljómsveitina og stjórnandi hennar að þessu sinni er Guðni
Franzson.
Ungu tónlistarnemarnir, sem skipa Sinfóníuhljómsveit
tónlistarskólanna, mættu á fyrstu æfingu nýstofnaðrar
hljómsveitar föstudaginn 7. janúar sl. og þar með hófst
strangt námskeið sem lýkur með tónleikum í Langholtskirkju
laugardaginn 29. janúar kl. 16, en þar mun hljómsveitin þreyta
frumraun sína.
Viðfangsefni sveitarinnar eru:
- Igor Stravinsky: Sinfónía í þremur þáttum (1945)
- Malcolm Arnold: Skoskir dansar op. 59
- John Speight: Ariel, konsert fyrir básúnu og hljómsveit,
saminn sérstaklega af þessu tilefni og frumfluttur á
tónleikum sveitarinnar.
Allt eru þetta verkefni sem gætu prýtt efnisskrá fullveðja
sinfóníuhljómsveitar hvar sem er í heiminum.
Undanfarin ár hafa tónlistarskólar á höfuðborgarsvæðinu
verið að reyna samstarf í þessa átt og er stofnun
hljómsveitarinnar framhald af þeim tilraunum. Þess er vænst
að Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna verði í
framtíðinni vettvangur tónlistarnema í framhaldsnámi til
þjálfunar í hljómsveitarleik.
Æfingar
Sjá
tilkynningu um æfingar
|