Tvö kammerverk eftir meistara
Mozart, strengjakvintett í g-moll og píanókvartett í
g-moll, munu hljóma á hádegistónleikum í Salnum
næstkomandi laugardag þann 8. mars kl. 13.00.
Flytjendur eru fiðluleikararnir Bryndís Pálsdóttir og
Sigurlaug Eðvaldsdóttir, víóluleikararnir Ásdís H.
Runólfsdóttir og Svava Bernharðsdóttir, sellóleikarinn
Pawel Panasiuk og píanóleikarinn Agnieszka Panasiuk.
Efnisskrá
- W.A. Mozart
Strengjakvintett í g-moll KV 516
- W.A. Mozart
Píanókvartett í g-moll KV 478
Um verkin
Árið 1785 bað nótnaútgefandinn og tónskáldið
Anton Hoffmeister Mozart um að semja fyrir sig þrjá
píanókvartetta til útgáfu, en þeir Mozart voru góðir
vinir. Píanókvartettar höfðu fram að því ekki verið
samdir og var þetta því nýtt tónlistarform. Gerðu
þeir samning um þetta og kom fyrsti kvartettinn út í
árslok 1785 hjá forlagi Hoffmeisters. Var sá kvartett í
g-moll og verður fluttur hér í dag. Viðtökur verksins
voru ekki góðar því hann var of erfiður fyrir allan
almenning til flutnings í heimahúsum, en þannig var
kammertónlist yfirleitt flutt þá. Mozart losaði því
Hoffmeister undan útgáfusamningnum en annar
píanókvartett, sem hann var byrjaður að semja, kom út
hjá öðru forlagi ári seinna. Fleiri urðu
píanókvartettar Mozarts ekki. Kvartettinn í g-moll er
númer KV 478 í verkaskrá Mozarts og er í hefðbundnum
þrem köflum. Fyrst er magnþrungið og dramatiskt allegro,
þá fremur dapurt og þungbúið andante og að lokum hratt
rondo sem léttara er yfir. Píanóið gegnir miklu
hlutverki í verkinu, næstum eins og um lítinn
pínókonsert sé að ræða og ekki á færi nema vel
þjálfaðs píanista.
Í apríl 1788 birtist í Wiener Zeitung auglýsing frá
"Kapellmeister" Mozart þar sem hann býður
fólki að gerast áskrifendur að þrem strengjakvintettum
sem hann hyggist gefa út. Undirtektir voru dræmar og
frestaðist útgáfan til 1. janúar 1789. Einn þessara
kvintetta var í g-moll og verður hann leikinn hér í dag.
Er hann með númerið KV 516 í verkaskrá Mozarts. Þetta
verk er einn af hátindunum meðal verka Mozarts og þýska
tónskáldið Richard Strauss gekk svo langt að segja að
verkið væri meðal bestu tónverka sem yfirleitt hefðu
verið samin. Í strengjakvintettum sínum hefur Mozart
tvær víólur gagnstætt t.d. Schubert og Boccherini sem
nota tvö selló. Blær verkanna verður því ekki eins
dökkur. Kvintettinn er í fjórum köflum: fyrst hraður
upphafskafli, þá meðalhraður menúett, svo hægur kafli
(andante) og að lokum hraður lokakafli með hægum
inngangi. Í verkinu kristallast blær andlegrar angistar
sem snilligáfa Mozarts gerir að ódauðlegu listaverki.
Runólfur Þórðarson
Um flytjendur
Bryndís Pálsdóttir hóf fiðlunám
í Barnamúsíkskóla Reykjavíkur, en lauk einleikaraprófi
frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1984. Hún hélt
þá til frekara náms í New York, þar sem hún lauk M.M.
prófi frá Juilliard-skólanum vorið 1988. Árið eftir
stundaði hún nám í Amsterdam. Frá 1989 hefur hún verið
fastráðinn fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands,
kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og leikið
kammertónlist af ýmsu tagi.
Sigurlaug Eðvaldsdóttir stundaði
nám í fiðluleik við Tónlistarskólann í Reykjavík undir
handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og útskrifaðist
þaðan árið 1983. Framhaldsnám stundaði hún í Manhattan
School of Music í New York hjá Ani Kavafian. Eftir námið
starfaði hún í fimm ár við Sinfóníuhljómsveit í
Mexico. Frá haustinu 1994 hefur Sigurlaug starfað í
Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún kennir við
Tónlistarskóla Seltjarnarness. Auk þess er hún meðlimur
í ýmsum tónlistarhópum eins og Kammersveit Reykjavíkur,
CAPUT og Cammerarctica. Einnig spilar hún reglulega á vegum
Kammermúsíkklúbbsins og í Íslensku óperunni.
Ásdís Hildur Runólfsdóttir lauk
fiðlukennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og
stundaði svo nám í víóluleik í Þýskalandi og Hollandi
hjá Unni Sveinbjarnardóttur, Misha Geller og Prunellu Pacey.
Hún hefur síðan 1987 kennt fiðlu- og víóluleik við
Tónlistarskóla Kópavogs og starfað sem víóluleikari,
aðallega með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit
Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
Svava Bernharðsdóttir víóluleikari,
hóf fiðlunám á Selfossi hjá núverandi vígslubiskupi í
Skálholti, Sigurði Sigurðssyni. Næsti kennari hennar var
Diddi fiðla, Sigurður Rúnar Jónsson, sem einnig er
þekktur fyrir að spila á íslenska fiðlu. Gígja
Jóhannsdóttir og Rut Ingólfsdóttir tóku svo við þar sem
Svava flutti til Reykjavíkur. Næstu árin nam Svava í
Eþíópíu, Illinois, Hollandi og New York, en þar lauk hún
doktorsprófi við Juilliard skólann. Lokaverkefni hennar
þar fjallaði um sögu og þróun íslensks fiðlu- og
víóluleiks. Svava var næstu árin í Sviss og Þýskalandi
og Slóveníu, en er nú búsett hér og kennir og starfar
með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tekur virkan þátt í
flutningi kammertónlistar.
Aðgangseyrir
-
Almennt miðaverð: 1.500 kr.
-
Eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn:
1.200 kr.
-
Kennarar Tónlistarskóla Kópavogs: 500
kr.
-
Nemendur Tónlistarskóla Kópavogs og
aðstandendur: Frítt.
-
12 ára og yngri: Frítt
Sími í miðasölu er 5 700 400 og er opið virka daga
kl. 9.00-16.00 og klst. fyrir tónleika.
|