Laugardaginn 8. nóvember nk. kl. 13.00 verða
fyrstu tónleikarnir í tónleikaröð kennara
Tónlistarskóla Kópavogs á þessu starfsári. Þar munu
Guðrún S. Birgisdóttir og Elísabet Waage flytja tónverk
fyrir flautu og hörpu.
Efnisskrá
- Johann Sebastian Bach
Sónata í E-dúr BWV 1035
- adagio ma non troppo
- allegro
- siciliana
- allegro assai
- Christoph Willibald Gluck
Orphée Scéne des Champs Elysées
(Orfeus á Ódáinsvöllum úr óperunni
Orfeus og Evridís)
- Marcel Tournier
Au matin
(Að morgni)
- konsert-etýða fyrir einleikshörpu
- Bernard Andrès
Narhtex (fordyrið)
- Lútuleikarinn
- Flóttinn til Egyptalands
- Dans nískupúkans
- Dans djöflanna
- Dauði nískupúkans
- Svefn vitringanna
- Sítarleikarinn
- Kain og Abel
- Dans hinna fordæmdu
- Flótti djöflanna
- Gabriel Fauré
Morceau de concours
(Keppnisverk)
- Maurice Ravel - úts. L. Fleury
Pièce en forme de Habanera
(verk í Havana-stíl)
- Jacques Ibert
Entr´acte
(millispil)
Um verkin
Efnisskráin Bach og Frakkarnir varð þannig til að
við Elísabet vorum beðnar um franska efnisskrá fyrir
Tónlistarfélag Borgarfjarðar í fyrra. Við höfðum
nokkrum sinnum áður leikið franskar efnisskrár en að
þessu sinn langaði okkur til smygla inn
eftirlætissónötunni í E-dúr eftir J.S. Bach. Og viti
menn hún féll eins og engill að Frökkunum og þá
rifjaðist það upp fyrir okkur að það var franski
flautusnillingurinn Buffardin sem gerði flautuna svo
aðlaðandi á tímum Bachs og að Bach átti það að
einhverju leyti Frökkum að þakka hve vel hljómandi
þýska flautan (traverso) var orðin því hún hafði
einnig verið endurbætt við hirð Lúðvíks XIV í
Versölum. Og við flautuleikarar síðari tíma erum þá
ekki síður þakklát því ekkert stórtónskáld
sígildrar tónlistar gerði jafnvel við flautuna og Bach.
Frakkar tóku á 18. öld ástfóstri við
Austuríkismanninn Gluck og eigna sér hann gjarnan og hann
færði flautunni óviðjafnanlegt millispil í frönsku
útgáfunni af Orfeusi og Evridísi.
Verkin eftir Andrès, Fauré, Tournier, Ravel og Ibert
eru eru 19. og 20. aldar verk og hafa það að geyma sem
ég elska mest við franska menningu: stíl, fágun,
hógværð, blæbrigði og elegans en líka furðulega
blöndu af lífsnautn og aga. Vonandi getum við komið
einhverju af því til skila. (G.B.)
Um flytjendur
Elísabet Waage stundaði nám í píanó- og
hörpuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk
píanókennaraprófi þar 1982. Þá nam hún hörpuleik
við Konunglega Tónlistarháskólann í den Haag í
Hollandi. Kennari hennar var hinn virti hörpuleikari og
kennari, Edward Witsenburg. Árið 1987 lauk hún náminu
með einleikara-og kennaraprófi.
Að loknu námi bjó og starfaði Elísabet í Hollandi.
Hún sótti Ísland þó oft heim og hélt tónleika í
báðum löndum, auk margra annara Evrópulanda. Hún hefur
spilað í kammermúsíkhópum s.s. Kammersveit
Reykjavíkur, Caput-hópnum og verið gestur Cikada í
Noregi. Eins hefur hún leikið í ýmsum
sinfóníuhljómsveitum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands
og Noord-Nederlands Orkest í Hollandi. Hún hefur komið
fram sem einleikari með Kammersveit Rvk., Íslensku
hljómsveitinni, Autunno í Hollandi, Avanti í Finnlandi og
Århus Sinfonietta í Danmörku. Elísabet hefur gert
upptökur fyrir útvarp og sjónvarp og leikið inn á
geisladiska. Þeirra á meðal eru diskar með Peter Verduyn
Lunel, flautuleikara (Arsis 1994) og með Gunnari Kvaran,
sellóleikara (Sonet 2004). Tvívegis hefur Elísabet
þegið boð um að spila á Alþjóðlegu hörpuþingi
(World Harp Congress), í Kaupmannhöfn árið 1993 og í
Amsterdam 2008.
Síðan haustið 2002 hefur Elísabet verið
hörpukennari við Tónlistarskóla Kópavogs.
Guðrún Sigríður Birgisdóttir stundaði nám
í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík m.a.
hjá Manuelu Wiesler og nam svo áfram við Musikkhögskolen
i Oslo og í Frakklandi. Að loknum prófum frá Ecole
Normale de Musique í París (m.a. Diplome d´éxécution í
flautuleik og Diplome superieur í kammermúsík) stundaði
hún framhaldsnám í París í þrjú ár með styrk frá
franska ríkinu. Hún hóf svo störf á Íslandi árið
1982 sem sjálfstæður flautuleikari og sem kennari við
Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla
Kópavogs. Hún er nú deildarstjóri við Tónlistarskóla
Kópavogs og hefur útskrifað marga nemendur.
Guðrún hóf ung störf sem flautuleikari í Hljómsveit
Íslensku óperunnar og leikur þar enn. Hún hefur haldið
fjölda einleiks- og kammertónleika og hljóðritað fyrir
útvarp og sjónvarp og gefið út nokkra geisladiska en
einnig leikið á barokkflautu og frumflutt íslensk
flautuverk, sem mörg hafa verið samin fyrir hennar
tilstuðlan. Guðrún hefur leikið einleik í París, San
Fransisco, Prag, Amsterdam, Ljubljana, Oslo, Vínarborg og
víðar. Hún hefur verið bæjalistarmaður Kópavogs og
fengið starfslaun íslenska ríkisins, síðast árið
2006. Í nóvember er væntanlegur nýr diskur hjá
Íslenskri tónverkamiðstöð "Hlið við hlið"
með leik Guðrúnar og Martial Nardeau þar sem þau flytja
nýlega íslenska flaututónlist sem fyrir þau var samin.
Aðgangseyrir
- Almennt miðaverð: 1.500 kr.
- Eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn: 1.200 kr.
- Kennarar Tónlistarskóla Kópavogs: 500 kr.
- Nemendur Tónlistarskóla Kópavogs og aðstandendur: Frítt.
- 12 ára og yngri: Frítt
Sími í miðasölu er 5 700 400 og er opið virka daga
kl. 9.00-16.00 og klst. fyrir tónleika.
|