Úr aðalnámskrá tónlistarskóla:

Mennta- og menningarhlutverk tónlistarskóla er að

veita öllum, sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun
skapa nemendum tækifæri til tónlistarflutnings, jafnt innan skóla sem utan
FRÉTTIR 2009

 

Fréttir

25. febrúar 2009

Meistaranámskeið og tónleikar á Píanódögum í Salnum

Ítalski píanóleikarinn Domenico Codispoti heldur einleikstónleika í Salnum föstudagskvöldið 27. febrúar nk. og hefjast þeir kl. 20. Á efnisskrá tónleikanna eru verk eftir Robert Schumann, Enrique Granados, Franz Liszt og Sergej Rachmaninov. Tónleikarnir marka upphaf Píanódaga í Salnum sem haldnir eru í samvinnu fjögurra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu. Það eru Tónlistarskóli Hafnarfjarðar, Tónlistarskóli Kópavogs, Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar sem standa að Píanódögunum.

Laugardaginn 28. febrúar og sunnudaginn 1. mars leiðbeinir Codispoti ungum píanóleikurum á meistaranámskeiði í Salnum. Námskeiðið stendur frá kl. 9:30 til 16:30 á laugardeginum og frá kl. 9.30 til 16:00 á sunnudeginum. Námskeiðið er öllum opið og án endurgjalds.

Domenico Codispoti fæddist árið 1975 í Catanzaro í Calabria á Suður-Ítalíu. Að loknum glæsilegum námsferli og sigrum í fjölda píanókeppna gerði hann víðreist og hefur haldið einleikstónleika og leikið með virtum sinfóníuhljómsveitum á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og í Asíu. Codispoti hefur hvarvetna hlotið lof áheyrenda og gagnrýnenda fyrir áhrifamikinn leik. Hann hefur verið fenginn til að dæma í alþjóðlegum píanókeppnum og hin síðari ár hefur hann fengist í auknum mæli við að leiðbeina nemendum á masterclass-námskeiðum. Codispoti hefur áður sótt Ísland heim. Á vegum Íslandsdeildar Stofnunar Dante Alighieri hefur hann leikið á TÍBRÁR-tónleikum í Salnum í Kópavogi árið 2000, í Hömrum á Ísafirði árið 2000, í Ými árið 2003 og í Hafnarborg ásamt Kammersveit Hafnarfjarðar á Listahátíð 2006. Hann kom fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2001. Síðast sótti Domenico Codispoti Ísland heim fyrir tveimur árum og hélt þá tónleika í Salnum og masterclass námskeið fyrir unga píanóleikara. Tónleikarnir fengu framúrskarandi dóma og voru valdir einir af fernum bestu tónleikum ársins 2007 að mati dagskrárgerðarmanns RÚV, Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur.

Efnisskrá

  • Robert Schumann
    Kinderszenen op. 15
     
  • Enrique Granados
    Goyescas
    "La Maja y el Ruiseñor"
    "El Amor y La Muerte"

    HLÉ
     

  • Franz Liszt
    3 Sonetti del Petrarca
    Nr. 47 "Benedetto sia 'l giorno"
    Nr. 104 "Pace non trovo"
    Nr. 123 "I' vidi in terra angelici costumi
     
  • Sergej Rachmaninov
    Sónata op. 36, nr. 2 (1931)

Aðgangseyrir

  • Almennt miðaverð: 2.000 kr.
  • Eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn: 1.000 kr.

Sími í miðasölu er 5 700 400 og er opið virka daga kl. 9.00-16.00 og klst. fyrir tónleika.

 

 
 

 

 

Tónlistarskóli Kópavogs | Tónlistarhúsi Kópavogs | Hamraborg 6 | 200 Kópavogur | Sími 578 5700 | tonlistarskoli@tonlistarskoli.is