Aðrir tónleikarnir í TKTK tónleikaröðinni
19. mars 2011 hefjast kl. 15:00. Flytjandi er Ríkharður H.
Friðriksson.
Efnisskrá
- Ríkharður H. Friðriksson
Postcards from North and South (2008/09)
- Ríkharður H. Friðriksson
Rondó (2007- )
- Ríkharður H. Friðriksson
Þrjú verk um náttúru Íslands (2007)
1. Hindisvík
2. Malarrif
3. Krí-Krí
- Ríkharður H. Friðriksson
Kristalhringir (2008/09)
- Ríkharður H. Friðriksson
Líðan II (2002/11)
Um höfund
Ríkharður H. Friðriksson er fæddur árið 1960 í
Vestmannaeyjum. Hann lærði tónsmíðar við
Tónlistarskólann í Reykjavík; Manhattan School of Music,
New York; Accademia Chigiana, Siena; og Konunglega
Tónlistarháskólann í Haag hjá Atla Heimi Sveinssyni,
Þorkatli Sigurbjörnssyni, Elias Tanenbaum, Franco Donatoni
og Clarence Barlow, auk þess að nema raftónlist við
Instituut voor Sonologie í Haag og sækja námskeið í
tölvutónsmíðum við Sweelinck tónlistarháskólann í
Amsterdam og sumarskólann í Darmstadt. Einnig lauk hann
námi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og klassískum
gítarleik frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.
Eftir Ríkharð liggja bæði hljóðfæra- og
raftónsmíðar sem hafa verið fluttar víða um heim, auk
þess sem þeim hefur verið útvarpað í fleiri löndum í
Evrópu og Asíu. Hann hefur fengið Fulbright ferðastyrk
til náms í Bandaríkjunum, styrk frá Vísindasjóði
Íslands til rannsókna á íslenskri tónlistarsögu og
styrki frá NOMUS (Norræna tónlistarnefndin) og Nordisk
Kulturfond vegna samnorræns tölvutónlistarverkefnis og
ART 2000 raf og tölvutónlistarhátíðarinnar. Hann hefur
fjórum sinnum fengið starfslaun listamanna, auk þess að
hljóta Menningarverðlaun DV og verðlaun á alþjóðlegu
raftónlistarhátíðinni í Bourges.
Ríkharður gerir raftónlist sem fer tvær
grundvallarleiðir; annað hvort gerir hann hreina víðóma
afspilunartónlist þar sem unnið er með náttúruhljóð
og hreyfingu þeirra í rými, eða hann iðkar lifandi
spuna með rafgítar og vinnur hljóð hans áfram með
tölvutækni. Í seinni geiranum kemur hann annað hvort
fram einn eða með sveitinni Icelandic Sound Company.
Ríkharður kennir tónsmíðar, raftónlist og
tónlistarsögu við Tónlistarskóla Kópavogs,
Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík.
Verkin á tónleikunum
Postcards from North and South (2008/2009) er
framlag mitt til samvinnuverkefnis tónskálda frá
Norðurlöndunum og Suður-Ameríku. Allir lögðu hljóð
frá sínu landi í púkkið og síðan voru gerð stutt
verk þar sem menn notuðu annars vegar sín eigin hljóð
og hins vegar hljóð frá hinum heimshlutanum. Ég tók
þann pól í hæðina að tefla hljóðunum saman sem
andstæðum án þess að reyna að tengja þau
sérstaklega. Þannig nota ég einvörðungu
náttúruhljóð frá Íslandi; vatnsnið frá
Öskjusvæðinu, fótatak í fjörugrjóti frá Dritvík,
kríur frá Vatnsnesi og fleira. Þessu tefli ég á móti
ýmsum manngerðum hljóðum frá Suður-Ameríku, jú, og
páfagaukum frá Úrúgvæ sem reyna af veikum mætti að
tengja heimana tvo saman.
Verkið var upphaflega unnið í stereo en seinna
endurgert í víðóma útgáfu.
Rondó (2007- ) fyrir rafgítar og gagnvirkt
tölvukerfi er að talsverðu leyti byggt á "litlu
hljóðunum", hljóðunum sem eru svo veik að þau eru
næstum aldrei notuð - enda varla heyranleg. Hressileg
uppmögnun bætir úr því og opnar nýjan hljóðheim sem
hægt er að kjamsa á í tölvunni. Þá eru hljóðin
hreint ekki svo lítil lengur.
Nafnið er til komið af tveimur ástæðum. Annars vegar
minnir formið lítið eitt á rondó-form, a.m.k. eru
nokkur "viðlög" sem koma aftur og aftur. Hins
vegar, svo merking orðsins sé tekin bókstaflega, fara
hljóðferlin ófáa hringina í kringum áheyrendur.
Þrjú verk um náttúru Íslands (2007) eru fyrstu
hlutarnir í einhverju sem stefnir í að verða nokkuð
stórt verk í mörgum köflum þar sem tekinn er púlsinn
á náttúru Íslands, eða a.m.k. þeim hlutum hennar sem
gefa frá sér hljóð. Kveikjan er alltaf íslensk
náttúruhljóð sem fara síðan í einhvers konar
ferðalag á eigin forsendum, með drjúgri hjálp
tölvunnar, auðvitað.
Hindisvík inniheldur öldugang og fuglasöng á
góðviðrisdegi þar sem kyrrðin ætti að vera
yfirþyrmandi, en þegar hlustað er djúpt inn í lítil
hljóð, þá eru þau ekki svo lítil lengur. Verst er að
ekki er hægt að taka upp hljóðið í miðnætursólinni.
Malarrif er hér túlkað innan úr vitanum þar í
hávaðaroki. Það syngur og hvín í vitanum og stögum
utan á honum. Stór holur hlutur eins og vitinn virkar hér
líkt og hljómbotn í gríðarstóru hljóðfæri og gefur
veðurhljóðinu sín eigin einkenni. Hér hefur engu verið
breytt í tölvunni. Þetta er vitinn ómengaður.
Krí-krí þarf engum að koma á óvart að inniheldur
ekkert nema kríur frá Vatnsnesi; frá Kárastaðarétt og
Ósum. Árásargirni þeirra er uppistaða verksins.
Upptakan var ekki alveg áhættulaus...
Kristalhringir (2008/2009) er
"endurblöndun" á tveimur kammerverkum eftir Pál
Pampichler Pálsson sem varð áttræður um það leyti.
Það eru kammerverkið Kristallar frá 1970 og sönglagið
Hinghenda frá 1990, flutt af Signýju Sæmundsdóttur.
Hljóðin komu öll upphaflega úr upptökum af verkunum.
Síðan kom eitthvað fyrir þau...
Upphaflega útgáfan var pöntun frá Ríkisútvarpinu í
tilefni áttræðisafmælis Páls. Verkið var upphaflega
unnið í stereo en seinna endurgert í víðómi.
Líðan II (2002/2011) Ertu að drepast úr
hálsbólgu? Rótkvefaður? Fékkstu þér ríflega neðan
í því í gær? Er röddin í steik og öndunarfærin í
rúst? Kveikjan að verkinu varð í dimmasta skammdeginu
þegar höfundur þjáðist af flestu ofangreindu og
hljóðheimur bilaðra öndunar- og talfæra umlukti hann og
heltók um nokkurt skeið.
Verkið var unnið nær alfarið á Kyma
hljóðvinnslukerfið í Tónveri Tónlistarskóla Kópavogs
í mesta skammdeginu veturinn 2001-2002. Ekki náðist að
klára verkið almennilega fyrir skilafrest í febrúar;
það var því unnið áfram á vormánuðum 2002 og þá
flutt talsvert breytt undir nafninu Líðan II. Enn líður
tíminn og í febrúar og mars sl. var verkið endurunnið
lítillega og endurhljóðblandað, án nafnbreytingar í
þetta sinn.
Aðgangseyrir
- Almennt miðaverð: 1.000 kr.
- Tónleikapassi, gildir á alla tónleika: 2.000 kr.
- Nemendur TK og aðstandendur: Ókeypis.
|