Fyrstu tónleikarnir í TKTK tónleikaröðinni
19. mars 2011 hefjast kl. 13:00. Flytjendur eru Pamela De
Sensi, þverflauta, Ingunn Hildur Hauksdóttir, píano,
Frank Aarnink, slagverk, og Steef van Oosterhout, slagverk.

Efnisskrá
- Christine K. Brückner (1967)
Tsetono, fyrir flautu og píanó
- Gloria Coates (1939)
Phantom, fyrir flautu og píanó
- Giancarlo Scarvaglieri (1977)
Sound as.....life, fyrir bassaflautu og bodypercussion.
Frumflutningur.
- A. Cocomazzi (1975)
ICELAND, fyrir flautu og slagverk
- Ernesto Cordero (1946)
Concierto Borikién fyrir flautu, píanó og tvo
slagverksleikara. Frumflutningur
Um verkin og höfundana
Christine Brückner er fædd í Hamborg 1967 og
lærði tónsmíðar í tónlistarháskólanum þar í borg.
Hún starfar sem listamaður, kennari og harmonikuleikari.
Tónsmíðar hennar eru svo til eingöngu kammertónlist en
einnig hefur Christine samið óperu, Diamond Way, sem
frumsýnd var árið 1999. Christine kemur reglulega fram
sem hljóðfæraleikari í leikhúsi, m.a. í kabarettum og
alls kyns fjölbreytilegum leiksýningum.
Gloria Coates er fædd í Wisconsin árið 1938.
Hún hóf snemma sinn tónsmíðaferil og vann til
verðlauna 14 ára gömul. Gloria lauk mastersprófi í
tónsmíðum frá Columbia University þar sem hún lærði
m.a. hjá Alexander Tcherepnin og Otto Luening. Gloria
flutti til Þýskalands 1969 og hafa verk hennar verið
flutt víða í Evrópu og einnig verið gefin út á
hljómdiskum. Tónlist Gloriu er af fjölbreyttum toga, 15
sinfóníur, 8 strengjakvartettar, kammertónlist sem og
leikhústónlist.
Ítalinn og gítarleikarinn Giancarlo Scarvaglieri er
fæddur árið 1977. Hann lærði gítarleik hjá Marco
Cappelli í tónlistarháskólanum í Palermo en hefur
einnig stundað nám við háskólann í Bologna. Verk
Scarvaglieri hafa verið flutt víða og hefur hann unnið
til ýmissa verðlauna fyrir tónsmíðar sínar. Hann semur
fyrir hljóðfæri sitt, gítarinn, en einnig kammertónlist
af ýmsu tagi. Í ágúst 2008 var verk hans "IOR"
valið fyrir alþjóðlega hátíð ungra tónskálda sem
haldin var í Riga í Lettlandi. Scarvaglieri starfar sem
gítarkennari og stundar einnig tónsmíðanám við
Vincenzo Bellini tónlistarháskólann í Palermo á
Ítalíu.
Antonio Cocomazzi lærði tónsmíðar og
píanóleik í tónlistarháskólum Foggia og Pescara á
Ítalíu. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir
flutning á eigin verkum. Verk hans eru um 180 talsins, þar
af kammertónlist, hljómsveitartónlist, einleiksverk fyrir
píanó og kórverk. Erfitt er að lýsa hans persónulega
stíl. Cocomazzi smakkar á velflestum stíltegundum og
blandar jafnvel saman straumum og stefnum tónlistarinnar,
kannski má tala um "Crossover" tónlist. Hans
hugsjón er fyrst og fremst að tónlistin sjálf heilli
áheyrandann og fái hann til að láta sig dreyma,
burtséð frá því hvaða stíl tónlistin tilheyrir.
Ernesto Cordero (1946) er fæddur í New York en
ólst upp í Puerto Rico. Hann hóf gítarnám hjá Jorge
Rubiano árið 1961 og innritaðist í
tónlistarháskólanum í Puerto Rico og stundaði
framhaldsnám í konunglega tónlistarháskólanum í Madrid
1972-1974 og hjá Julian Orbón í New York 1977-1978.
Cordero er prófessor bæði í gítar- og tónsmíðadeild
háskólans í Puerto Rico og hefur verið virkur sem
tónskáld, hljóðfæraleikari og kennari. Þá var hann
tónlistarstjóri International Guitar Festival of Puerto
Rico 1980-1997. Hann hefur samið fjölda fjölbreytilegra
verka sem m.a. eru undir áhrifum frá karabískri tónlist.
Einnig hefur hann samið nokkur hljómsveitarverk, m.a. með
gítareinleik, sem hefur t.a.m. verið flutt af
gítarleikaranum Angel Romero og Puerto Rico Symphony
Orchestra. Þá hefur hann samið kammerverk og
einleiksverk, mörg þeirra fyrir gítar. Um verk hans hefur
verið sagt að þau; "often evokes nostalgic feelings
of longing for the island of Puerto Rico, through such works
as the romantic "Bacetos Sonoras" or the
"Vineta Criolla" with its clave rhythm". Verk
hans hafa verið hljóðrituð og flutt, m.a. í Frakklandi
og Þýskalandi, undir stjórn þekkta tónlistarmanna svo
sem Leo Brower. Cordero er þekktastur sem tónskáld en er
jafnframt viðurkenndur hljóðfæraleikari. Hann þreytti
frumraun sína í Carnegie Hall í New York árið 1978 og
hefur síðan leikið á fjölda tónleika víðs vegar um
heiminn. Concierto Borikién er upphaflega samið fyrir
flautu og hljómsveit en Cordero gerði sjálfur þessa
útsetningu fyrir flautu, píanó og tvo slagverksleikara.
Um flytjendur
Frank Aarnink stundaði nám í Hilversum og
Amsterdam. Hann hefur spilað með mörgum
sinfóníuhljómsveitum í Hollandi og tekið þátt í
óperu- og söngleikjauppfærslum. Frá árinu 2001 hefur
Frank verið fastráðinn sem slagverks- og pákuleikari
við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Ingunn Hildur Hauksdóttir stundaði nám við
Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskólann í
Reykjavík. Hún lauk píanókennara- og einleikaraprófi
vorið 1993 og hefur sótt námskeið m.a. hjá György
Sebök, Dalton Baldwin og Nelitu True. Einnig hefur hún
sótt einkatíma hjá Roger Vignoles með áherslu á
meðleik. Ingunn hefur tekið þátt í ýmiss konar
kammertónlist meðfram starfi sínu sem píanókennari og
meðleikari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar,
Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlistarskólann í
Reykjavík. Hún gaf nýverið út geisladisk ásamt Gretu
Guðnadóttur, fiðluleikara, með tónlist eftir Helga
Pálsson.
Pamela De Sensi er fædd árið 1975 í Róm en
uppalin í Lamezia Terme á Suður-Ítalíu. Hún lauk
einleikaraprófi 1998 frá "Conservatorio di Musica L.
Perosi" í Campobasso á Ítalíu og svo lokaprófi í
kammertónlist frá "Conservatorio di Musica S.
Cecilia" í Róm 2002 . Einnig hefur hún sótt tíma
hjá heimskunnum flautuleikurum, svo sem C. Klemm, M.
Ziegler, F. Reengli, T. Wye og M. Larrieu. Hún hefur tekið
þátt í mörgum keppnum sem einleikari og alltaf orðið
í efstu sætum. Pamela hefur spilað á fjölda tónleika
víðs vegar, bæði sem einleikari og í kammertónlist, og
má þar nefna í Kasakstan, Mexíkó, á Íslandi,
Færeyjum, Finnlandi, í Bandaríkjunum og víðs vegar á
Ítalíu. Frá árinu 2008 hefur hún tekið virkan þátt
í að skipuleggja tónleika fyrir börn þar sem m.a. hafa
verið flutt verkin Pétur og úlfurinn eftir Prokofiev og
Karnival dýranna eftir Saint Saëns: Auk þess hefur hún
séð um Tónlist fyrir alla í Kópavogi 2008 og 2009. Í
september 2010 sá hún um útgáfu bókarinnar Karnival
dýranna, ásamt geisladiski sem út kom á vegum
Forlagsins. Nú um stundir kennir Pamela við
Tónlistarskóla Kópavogs, Tónskóla Sigursveins og
Tónlistarskóla Árnesinga, en einnig er stýrir hún
barnatónleikaröðinni "Töfrahurð" í Kópavogi
og er framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti".
Steef van Oosterhout lauk einleikaraprófi frá
Sweelinck Conservatorium í Amsterdam 1987. Starfaði í
Hollandi m.a. með ASKO ensemble, Schönberg ensemble og
Nederlands blazers ensemble. Einnig lék hann með flestum
sinfóníuhljómsveitum í Hollandi, þ.á m.
Concertgebouwhljómsveitinni í Amsterdam. 1991 var hann
ráðinn sem slagverks- og pákuleikari í
Sinfóníuhljómsveit Íslands, hefur að auki leikið með
ýmsum kammertónlistarhópum, þ.á m. CAPUT og Contrasti,
og er meðlimur í slagverkshópnum Bendu.
Aðgangseyrir
- Almennt miðaverð: 1.000 kr.
- Tónleikapassi, gildir á alla tónleika: 2.000 kr.
- Nemendur TK og aðstandendur: Ókeypis.
|