Úr aðalnámskrá tónlistarskóla:

Mennta- og menningarhlutverk tónlistarskóla er að

veita öllum, sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun
skapa nemendum tækifæri til tónlistarflutnings, jafnt innan skóla sem utan
FRETTIR 2019

 

Fréttir

5. nóvember 2019

TKTK: Klarinett, píanó og selló í Kefas á laugardag

Þriðju tónleikar vetrarins í Tónleikaröð kennara Tónlistarskóla Kópavogs verða haldnir í Fríkirkjunni Kefas, Fagraþingi 2a, laugardaginn 9. nóvember næstkomandi kl. 13:00. Flytjendur eru Guðríður St. Sigurðardóttir píanóleikari, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari og Rúnar Óskarsson klarinettleikari. Á efnisskrá eru verk eftir Nino Rota og Johannes Brahms.

Tónleikarnir erum um klukkustund að lengd, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. TKTK, Tónleikaröð kennara Tónlistarskóla Kópavogs, er styrkt af Kópavogsbæ.

Efnisskrá

  • Nino Rota (1911-1979)
    Tríó fyrir klarinett, selló og píanó (1973)
    Allegro
    Andante
    Allegrissimo
  • Johannes Brahms (1833-1897)
    Tríó fyrir píanó, klarinett og selló, op. 114 (1891)
    Allegro
    Adagio
    Andantino grazioso
    Allegro 

Um efnisskrána

Nino Rota er líklega þekktastur fyrir kvikmyndatónlist sína, og þar efst á blaði er tónlist hans við kvikmyndina The Godfather sem hann hlaut fyrir Óskarsverðlaun. Hann var fæddur á Ítalíu árið 1911, móðir hans var píanóleikari og afi hans var tónskáld. Hann hóf ungur að semja tónlist, var um 8 ára gamall og þegar hann var 12 ára var fyrsta óratórían hans frumflutt og fékk ágætar viðtökur. Nino Rota var uppi á 20. öldinni og fékk víða gagnrýni fyrir að semja tónlist sem væri ekki nógu mikil nútímatónlist, hún væri of gamaldags. Hann lét þá gagnrýni sem vind um eyru þjóta og hlustaði á sína innri rödd. Tónlist hans einkennist oft af draumkenndum, hjartnæmum laglínum, lituð af þrá og depurð, skyndilega rofin af hressilegum sirkuskenndum köflum sem brutu upp formið. Hann sagði sjálfur að hann vildi helst að hans yrði minnst fyrir svolítinn húmor og bjartsýni auk nokkurrar fortíðarþrár.

Það má segja að tríóið fyrir klarinett, selló og píanó sem var samið árið 1973 passi vel í þessa mynd. Fyrsti kaflinn er léttur og leikandi, annar kaflinn hægur og tilfinningaþrunginn og í síðasta kaflanum er húmorinn alls ráðandi, þar sveima um sirkuskenndar laglínur sem flakka á milli tóntegunda, oft á mjög óvæntan hátt.

Árið 1890 gaf Johannes Brahms út þá yfirlýsingu að hann væri hættur að semja tónlist. Þá var hann 57 ára gamall, en eftir að hafa heyrt ungan klarinettsnilling á tónleikum, mann að nafni Richard Mühlfeld, þá varð hann svo uppnuminn að hann tók aftur til við tónsmíðar og samdi fjögur ný verk þar sem klarinettið var í aðalhlutverki. Þessi verk má telja til lykilverka klarinetttónbókmenntanna. Tríó fyrir píanó, klarinett og selló er það fyrsta af þessum fjórum verkum.

Þeim Mühlfeld og Brahms varð vel til vina og kynnti Brahms Mühlfeld alltaf sem „Fräulein von Mühlfeld, meine Primadonna“ — eða „Fröken von Mühlfeld, prímadonnan mín“ og kallaði hann „Næturgala hljómsveitarinnar“ og í bréf til Clöru Schumann skrifaði hann: „Það er ekki hægt að leika betur á klarínettu en hann herra Mühlfeld gerir.“ Frá árinu 1892 fór Mühlfeld í langar tónleikaferðir og voru Brahms og fiðluleikarinn Joseph Joachim með honum í sumum þeirra. Þessi tónleikaferðalög urðu til þess að hin nýju kammerverk Brahms urðu þekkt víða um Evrópu. Leikur Mühlfelds hafði einnig djúp áhrif á marga klarínettuleikara sem heyrðu hann spila.

Um flytjendur

Guðríður Steinunn Sigurðardóttir hefur verið virk í tónlistarflutningi hér heima og erlendis í rúma þrjá áratugi sem píanóleikari með hljóðfæraleikurum, söngvurum, kórum og ýmsum tónlistarhópum og hljómsveitum. Hún hefur komið fram á tónleikum á vegum Tíbrár í Kópavogi, Tónlistarfélagsins í Reykjavík, Kammersveitar Reykjavíkur og Kammermúsíkklúbbsins og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Guðríður starfaði um árabil mikið með Íslensku óperunni.

Guðríður lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1978, stundaði framhaldsnám við háskólann í Michigan í Ann Arbor og hlaut mastersgráðu í píanóleik árið 1980. Sama ár voru henni veitt 1. verðlaun í píanókeppni á vegum Ann Arbor Society for Musical Arts. Síðar sótti Guðríður einkatíma í píanóleik í Köln í Þýskalandi. Guðríður kennir píanóleik við Tónlistarskóla Kópavogs þar sem hún er jafnframt deildarstjóri píanódeildar og meðleikari.

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir hóf sellónám við Tónlistarskólann á Akureyri ung að árum þaðan sem hún lauk framhaldsprófi undir handleiðslu Ásdísar Arnardóttur. Í framhaldi af því lærði hún hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran við Listaháskóla Íslands og Morten Zeuthen við Konunglega Konservatoríið í Kaupmannahöfn. Vorið 2019 lauk Hrafnhildur meistaranámi við Jacobs School of Music, Indiana University undir handleiðslu Brandon Vamos, sellóleikara Pacifica strengjakvartettsins, þar sem hún var handhafi Premier Young Artist Award og Marcie Tichenor skólastyrkjanna. Hún hefur auk þess sótt einkatíma og meistaranámskeið hjá Johannes Moser, Alisu Weilerstein, Richard Aaron, Darrett Adkins, Amir Eldan, Marcy Rosen, Alison Wells, Alex Kerr, Atar Arad, Emile Naoumoff o.fl.

Hrafnhildur hefur komið víða fram á tónlistarhátíðum innanlands og utan, leikið með hljómsveitum beggja vegna Atlantshafsins og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Auk þess hefur hún komið fram sem fyrsta selló í hljómsveitum á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Aurora Symphony Orchestra í Stokkhólmi og Aspen Opera Orchestra í Colorado, Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir sellóleik sinn, s.s. tónlistarverðlaun Rótarý, viðurkenningu frá Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat og minningarsjóði Jóns Stefánssonar, Thor Thors Fellowship og Leifur Eiríksson Fellowship. Hrafnhildur hefur einnig unnið til verðlauna sem meðlimur í Kuttner strengjakvartettinum, fyrrum heiðurskvartett Indiana University, og hefur með honum m.a. verið staðarkvartett vikulangt í Beethoven húsinu í Bonn. Í framhaldi af því bauðst kvartettinum að taka upp stutt, ókláruð kammerverk eftir Beethoven fyrir Naxos sem aldrei hafa verið tekin upp fyrr en nú. Verða þessar upptökur hluti af heiðursútgáfu Naxos á öllum verkum Beethovens sem gefin verður út árið 2020 í tilefni af 250 ára ártíð tónskáldsins.

Hrafnhildur leikur á Garavaglia selló frá árinu 2011 og boga úr smiðju James Tubbs frá nítjándu öld.

Rúnar Óskarsson klarínettuleikari hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 7 ára gamall. Hann lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1993 þar sem Sigurður I. Snorrason var kennari hans. Þaðan lá leiðin til Hollands þar sem Rúnar nam hjá George Pieterson við Sweelinck tónlistarháskólann og útskrifaðist þaðan með láði vorið 1996. Samhliða klarínettunáminu nam hann bassaklarínettuleik hjá Harry Sparnaay við sama skóla og lauk einleikaraprófi á bassaklarínettu vorið 1998. Rúnar sótti einnig tíma hjá Walter Boeykens við Tónlistarháskólann í Rotterdam.

Frá heimkomu árið 2001 hefur Rúnar verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi. Hann hefur leikið fjölda einleiks- og kamm ertónleika, leikið með ýmsum hópum, s.s. Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Hljómsveit íslensku óperunnar og tekið þátt í leikhúsuppfærslum. Fjölmörg verk hafa verið samin fyrir hann og var geisladiskurinn Monologues-Dialogues með nýrri íslenskri tónlist fyrir bassaklarínettu tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2005.

Rúnar hefur verið fastráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2004, kennir við Tónlistarskóla Kópavogs og er stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar.

[ Til baka á Frettir 2019 ]

 

Tónlistarskóli Kópavogs | Tónlistarhúsi Kópavogs | Hamraborg 6 | 200 Kópavogur | Sími 578 5700 | tonlistarskoli@tonlistarskoli.is