Úr aðalnámskrá tónlistarskóla:

Mennta- og menningarhlutverk tónlistarskóla er að

veita öllum, sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun
skapa nemendum tækifæri til tónlistarflutnings, jafnt innan skóla sem utan
FRÉTTIR 2005

 

Fréttir

8. mars 2005

Tónleikaröð kennara: Sononymus - Gagnvirk verk fyrir klassísk hljóðfæri og tölvu

Laugardaginn 12. mars 2005 kl. 13:00 verða haldnir tónleikar í Salnum í tónleikaröð kennara Tónlistarskóla Kópavogs. Í þetta sinn verða flutt gagnvirk verk eftir Hilmar Þórðarson fyrir klassísk hljóðfæri og tölvu. Flytjendur auk Hilmars eru Kristinn H. Árnason, gítarleikari, Áki Ásgeirsson, trompetleikari, og Þórunn Ósk Marinósdóttir, víóluleikari. Einnig mun Haraldur Karlsson fremja sjónlist, en Ríkharður H. Friðriksson annast hljóðstjórn.

Skólinn vill eindregið hvetja nemendur til að mæta á þessa tónleika, enda er aðgangur ókeypis fyrir þá og ekki spillir að sjá aðstandendur og velunnara skólans með í för.

Efnisskrá

  • Sononymus fyrir Rafgítar og Tölvu
    Kristinn H. Árnason, rafgítar
    Hilmar Þórðarson, tölva
     
  • Sononymus fyrir Trompet og Tölvu
    Áki Ásgeirsson, trompet og tölva
     
  • Sononymus fyrir Víólu og Tölvu
    Þórunn Ósk Marinósdóttir, víóla
    Hilmar Þórðarson, tölva
     
  • Sononymus fyrir Líkama og Tölvu
    Hilmar Þórðarson, líkami og tölva
    Haraldur Karlsson (Halli Kalli), myndband

Um höfundinn og verkin

Hilmar Þórðarson er fæddur á Akureyri 9. apríl 1960. Árið 1985 útskrifaðist Hilmar frá tónsmíðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík og skömmu síðar hélt hann til Bandaríkjanna þar sem hann lauk meistaraprófum í tónsmíðum frá California Institute of the Arts (MFA) árið 1989 og Yale tónlistarháskólanum (MA) 1991. Að loknu námi hélt Hilmar til Stanford háskóla þar sem hann var gestafræðimaður 1991-1992 og á árunum 1992-1995 starfaði Hilmar sem gestatónskáld við hljóðver tónlistarháskólans í Berkeley í Kaliforníu. Á þeim tíma gafst Hilmari gott tækifæri til þess að læra og gera tilraunir með allskonar aðferðir til þess að nota tölvutækni til tónsmíða og tónlistarflutnings. Árangur þessara tilrauna kemur vel fram í verki hans "Verur frá landi ísa", gagnvirku margmiðlunarverki byggðu á þjóðsögunum af íslensku jólasveinunum. Verkið er samið fyrir bandarísk-japanska dansflokkinn Harupin Ha og var sýnt víðs vegar um Kaliforníu og Frakkland. Gagnvirkt margmiðlunarverk þýðir að unnið er með fleiri listmiðla en einn, þ.e. tónlist, danslist og myndbandalist, og gagnvirkt er það þessi listform bregðast við skilaboðum frá hvoru öðru. Þannig var það í þessu verki þar sem dansararnir auk þess að dansa stýrðu þeir hljóði sem og myndbandi með hreyfingum sínum.

Árið 1995 flutti Hilmar aftur heim til Íslands og sama ár stofnaði hann ásamt Ríkharði H. Friðrikssyni tónskáldi, tónver Tónlistarskóla Kópavogs. Tónverið var fyrsta tónver við tónlistarskóla á Íslandi sem bauð upp á sérstakt tölvutónlistarnám og er nú án efa fullkomnasta tónver við tónlistarskóla á Íslandi. Það var snemma mjög vinsælt og árlega komast færri nemendur að en vilja.

Árið 2000 hélt tónverið stóra alþjóðlega raf- og tölvutónlistarhátíð sem hlaut nafnið ART2000 þar sem boðið var tónskáldum, hljóðfæraleikurum og fræðimönnum víðs vegar að úr veröldinni. Hátíðin stóð yfir í ellefu daga og vakti mikla athygli, sérstaklega þótti setningarathöfnin mikilfengleg, en þar var flutt tónverk fyrir flugeldasýningu og rafhljóð. Tónlistin og flugeldarnir voru svo mikilfengleg að símalínur lögreglunnar glóðu af dauðhræddum íbúum Kópavogs sem varð heldur bylt við af þessu óvænta kryddi í tilveruna. ART2000 hátíðin þótti takast svo vel að hún hlaut menningarverðlaun DV.

Í tónsmíðum sínum vinnur Hilmar jafnt með hefðbundin akústísk hljóðfæri sem og raf- og tölvuhljóðfæri. Hann blandar þeim gjarnan saman og er sú blöndun hvergi eins skýr eins og í röð tónsmíða sem allar bera samheitið Sononymus. Á tónleikunum þann 12. mars verða fjögur nýjustu Sononymus verkin flutt, en þau eru samin á síðustu tveimur árum. Elst þeirra er Sononymus fyirir trompet og gagnvirk tölvuhljóð sem ber undirtitilinn "Bitin eyru". Verkið er samið fyrir trompetleikarann og tónskáldið Áka Ásgeirsson árið 2003 og var frumflutt í ágúst það ár á Gauki á Stöng. Áki hefur sjálfur útbúið trompetinn sinn þannig að hann getur "fjarstýrt" tölvuhljóðum gegnum svonefnd MIDI skilaboð og þannig getur hann með því að ýta á nokkra aukatakka breytt hljóðunum úr tölvunni og með því að halla trompetnum á ýmsa vegu getur hann hreyft hljóðið á milli fjögurra hátalara þannig að það sveiflast fram og aftur. Nafnið "Bitin eyru" er einfaldlega tilkomið vegna þess að meðan Hilmar var að skrifa verkið þá var hann staddur úti í sveit og varð fyrir óvæginni árás mýflugna með þeim afleiðingum að eyru hans urðu útbitin.

Verkið Sononymus fyrir "Mannslíkama og gagnvirk tölvuhljóð" var samið seint á síðasta ári og lokið í byrjun þessa árs. Þar eru hreyfingar mannslíkamans notaðar til að framkalla hljóð og með bendingum handa og fingra er hljóðunum blandað saman og þau látin ferðast milli fjögurra hátalara sem eru fremst og aftast í Salnum. Á sama tíma og flytjandinn, sem í þessu tilviki er höfundurinn sjálfur, stjórnar verkinu, er myndbandi, sem gert er af Haraldi Karlssyni sjónskáldi, skotið á hann, þannig að myndbandið og flytjandinn mynda eina heild, þ.e. flytjandinn er jafnframt hluti af myndbandinu.

Sononymus fyrir Lágfiðlu og gagnvirk tölvuunnin hljóð var samið í upphafi þessa árs og er flutt af Þórunni Ósk Marinósdóttur. Í þessu verki gengur Hilmar út frá nótunum ACEH en þessir stafir mynda jafnframt nafn Aceh héraðs í Indónesíu, þess héraðs sem verst varð úti í flóðbylgjunni sem fylgdi jarðskjálftanum sem þar varð undir sjávarmáli. Verkið er tileinkað minningu fórnarlamba þessara gífurlegu náttúruhamfara þar sem á nokkrum klukkutímum létust fleiri en allir íbúar Íslands.

Nýjasta verkið sem flutt verður á tónleikunum heitir Sononymus fyrir Rafgítar og gagnvirk tölvuunnin hljlóð. Þar mun Kristinn H. Árnason sýna listir sýnar á rafgítar, en með honum mun Hilmar stjórna tölvuhljóðum og vinna með tónana sem berast frá rafgítarnum. Þetta verk er svo glænýtt að það er ekki búið að klára það enn og verður það örugglega ekki fyrr en rétt fyrir tónleika eða jafnvel á tónleikunum sjálfum.

Aðgangseyrir

  • Almennt miðaverð: 1.500 kr.
  • Eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn: 1.200 kr.
  • Kennarar Tónlistarskóla Kópavogs og aðstandendur nemenda: 500 kr.
  • Nemendur Tónlistarskóla Kópavogs: Frítt.
  • 12 ára og yngri: Frítt

Sími í miðasölu er 5 700 400 og er opið virka daga kl. 9.00-16.00 og klst. fyrir tónleika.

 

[ Til baka á Forsíðu ]

 

Tónlistarskóli Kópavogs | Tónlistarhúsi Kópavogs | Hamraborg 6 | 200 Kópavogur | Sími 578 5700 | tonlistarskoli@tonlistarskoli.is