Úr aðalnámskrá tónlistarskóla:

Mennta- og menningarhlutverk tónlistarskóla er að

veita öllum, sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun
skapa nemendum tækifæri til tónlistarflutnings, jafnt innan skóla sem utan
FRÉTTIR 2005

 

Fréttir

10. apríl 2005

Söngnemar flytja Töfraflautuna eftir W.A. Mozart

Nemendur söngdeildar Tónlistarskólans munu flytja Töfraflautuna eftir Wolfgang Amadeus Mozart í Salnum fimmtudaginn 14. apríl kl. 20.00 og föstudaginn 15. apríl kl. 20.00. Nemendur söngdeildarinnar hafa í vetur æft óperuna undir handleiðslu Önnu Júlíönu Sveinsdóttur söngkennara, sem leikstýrir sýningunni, og Krystynu Cortes píanóleikara. Óperan er flutt í íslenskri þýðingu eftir Þránd Thoroddsen, Böðvar Guðmundsson og Þorstein Gylfason, en óbundið mál þýddi Gunnsteinn Ólafsson. Leikstjóri stytti, breytti og sleppti setningum til að stytta óperuna og laga að einföldum sviðsbúnaði. 

Flytjendur

Tamino: Unnar Geir Unnarsson
Pamina: Lára Rúnarsdóttir
Næturdrottning: Eyrún Ósk Ingólfsdóttir
Papagena: Sigríður Kristín Helgadóttir
Papageno: Ragnar Ólafsson
Sarastro: Sigurður Ágúst Einarsson *
1. meyja: Fjóla Kristín Nikulásdóttir
2. meyja: Anna Hafberg
3. meyja: Erla Steinunn Guðmundsdóttir
1. sveinn: Margrét Helga Kristjánsdóttir
2. sveinn: Helga Dýrfinna Magnúsdóttir
3. sveinn: Þórhalla Sigríður Stefánsdóttir
Prestur: Sigurjón Örn Böðvarsson
Prestar:  Sigríður Kristín Helgadóttir
Margrét Helga Kristjánsdóttir 
Fjóla Kristín Nikulásdóttir
Helga Dýrfinna Magnúsdóttir
Erla Steinunn Guðmundsdóttir 
Þórhalla Sigríður Stefánsdóttir
Ófreskja: Ísak Þórsson
 
Leikstjóri: Anna Júlíana Sveinsdóttir
Píanóleikur:  Krystyna Cortes
Flautuleikur: Ragnhildur Anna Ragnarsdóttir
Inger Björk Ragnarsdóttir
Klukkuspil: Svala Kristín Þorleifsdóttir
Lýsing: Hilmar Sverrisson
Förðun: Ólöf Guðrún Helgadóttir

* Sigurður Ágúst Einarsson (Sarastro) er ekki nemandi við Tónlistarskóla Kópavogs.

Um verkið

Mozart samdi samdi Töfraflautuna skömmu áður en hann lést árið 1791. Hann var þá orðinn mjög veikur og vissi að endalokin nálguðust. Textinn er eftir vin Mozarts, Emmanuel Schickaneder sem rak fjárvana leikhús og þurfti að bæta fjárhaginn með töfraóperu. Mozart hafði jafnframt lofað vinum sínum í frímúrarareglunni að semja verk sem sýndi göfugt hlutverk hennar. Áhrifa reglunnar gætir í hátterni æðstaprestsins Sarastros og manna hans. Töfraflautan í styttu formi er aðgengileg fyrir börn og aðgangur er ókeypis.

Söguþráður

1. þáttur

Tamíno er konungssonur frá Egyptalandi sem villst hefur af leið. Honum er ógnað af ófreskju en meyjar næturdrottningarinnar bjarga honum og drepa ókindina. Tamino fellur í ómegin af hræðslu. Þegar hann rankar við sér kemur hann auga á fuglafangarann Papageno sem nálgast úr fjarska. Þeir heilsast og Papageno þykist hafa fellt ófreskjuna. Meyjarnar birtast, setja lás á munninn á Papageno fyrir lygarnar og gefa Tamino mynd af Pamínu dóttur næturdrottningarinnar. Tamíno heillast af henni og fyrr en varir birtist næturdrottningin og segir að Sarastro æðstiprestur hafi rænt Pamínu og hvetur Tamíno til að bjarga henni úr klóm hans. Meyjarnar birtast aftur og gefa Tamíno töfraflautu og Papageno klukkuspil. Tamíno ásamt Papageno halda til heimkynna Sarastros. Papageno finnur fyrst hina fangelsuðu Pamínu og þau ákveða að flýja. Þrír sveinar leiða Tamíno að hofi Sarastros. Tamíno spyr þá hvort Pamína sé enn á lífi og þeir segja að svo sé. Hann bregst glaður við og spilar á flautuna sína og syngur. Papageno og Pamína, sem eru á flótta, heyra flautuleikinn. Papageno tekur undir flautuspilið og þau ákveða að flýta sér til Tamínos. En skyndilega birtast prestar Sarastros og boða komu hans. Papageno skelfur og titrar en Pamína ákveður að taka örlögum sínum af æðruleysi. Brátt kemur í ljós að Sarastro er göfugur maður sem vill að réttlæti og manngæska ráði ríkjum. Tamíno birtist og er leiddur inn í hofið af tveimur prestum sem setja á þá höfuðpoka og taka af þeim flautuna og klukkuspilið.

2. þáttur

Sarastro hittir presta sína og segir þeim að Tamíno hafi ákveðið að ganga í reglu þeirra og með vináttu og visku að leiðarljósi. Guðirnir Ísis og Ósíris hafa valið honum Pamínu að konu, þótt hún sé dóttir næturdrottningarinnar sem reyni með rógi að grafa undan trúverðugleika prestanna. Pamína hefur losnað úr prísundinni en Sarastro ákveður að Tamíno og Papageno skuli gangast undir þrautir í hofinu til að kanna þolgæði þeirra og drenglyndi. Fyrsta þrautin er að mega ekki tala hvað sem á dynur. Tamíno þegir þegar Pamina ætlar að tala við hann og hún heldur að hann elski sig ekki lengur. Papageno er aftur á móti síblaðrandi og ekki síst þegar hann hittir gamla kerlingu sem svalar þorsta hans. Hún breytist í sæta Papagenu við að svipta af sér dulunni. Í millitíðinni kemur næturdrottningin að Pamínu dóttur sinni og fær henni rýting til að drepa Sarastro. Pamína kveðst ekki geta myrt Sarastro og fyllist örvæntingu. Þegar sveinarnir þrír eru í boltaleik að morgni dags koma þeir auga á Pamínu sem ætlar að stytta sér aldur með hnífnum. Þeir koma henni til bjargar og segja að Tamíno elski hana. Pamína kallar á Tamíno sem er inn í hofinu og þau ákveða að gangast saman undir þrautirnar. Þau vaða ósködduð gegnum eld og ís með hjálp töfraflautunnar sem sveinarnir höfðu áður fært Tamíno.
Papageno finnur hvergi Papagenu og ætlar að hengja sig. Enn einu sinni grípa sveinarnir inn í atburðarásina og minna hann á klukkuspilið sem sveinarnir höfðu fært honum aftur. Papagena birtist þegar hann spilar og þau syngja frægan dúett. Næturdrottningin laumast að hofinu með meyjum sínum til að drepa Sarastro en þrumur og eldglæringar eyða þeim og þær hverfa inn í myrkrið. Sarastro birtist ásamt Tamíno og Pamínu. Þau hafa hlotið vígslu eftir að hafa leyst allar þrautir með hjálp Töfraflautunnar.

Aðgangur er ókeypis

Aðgangur er ókeypis að sýningunum og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

 

[ Til baka á Forsíðu ]

 

Tónlistarskóli Kópavogs | Tónlistarhúsi Kópavogs | Hamraborg 6 | 200 Kópavogur | Sími 578 5700 | tonlistarskoli@tonlistarskoli.is