|
Tónver
Tónlistarskóla
Kópavogs
Í Tónlistarskóla Kópavogs er boðið upp á nám í
tölvutónlist við tónver skólans. Það tók til starfa árið
1995 og er eitt elsta starfandi tónver landsins. Í tónverinu er
mjög fullkomin aðstaða til að fást við tónlist og hljóð.

Kennt er á öll vinsælustu tónlistarforrit dagsins í dag og
auk þess fræðast nemendur um sögu raftónlistar, læra
upptökutækni, hljóðvinnslu, hljóðgervlaforritun og margt
fleira. Markmið með náminu er að þjálfa nemendur í að nota
tölvu sem aðalhljóðfæri og leggja öflugan grunn að námi á
háskólastigi og starfi þeirra sem
"tölvutónlistarmenn". Nemendur tónversins hafa frá
upphafi komið úr ólíkum áttum - og eftir nám hafa þeir
jafnframt dreift sér vítt og breitt um jarðir
tónlistarsenunnar og margir hverjir gert það afar gott.
Námið skiptist í:
- verklega tíma, þar sem kennd er meðferð tækja og
hugbúnaðar til hljóðhönnunar, hljóðritunar og
tónsköpunar.
- bóklega tíma, þar sem farið er yfir helstu atriði
hljóðfræði, upptökufræði og þróun raf- og
tölvutónlistar
- tónfræðatíma, þ.e. tónheyrn, hljómfræði og
tónlistarsögu auk valgreinar.
Námið er á framhaldsnámsstigi samkvæmt aðalnámskrá
tónlistarskóla og er námslengd er áætluð þrjú ár. Í
einstaka tilvikum kann að vera unnt að ljúka náminu á skemmri
tíma en einnig getur lengri námstími verið eðlilegur. Ekki er
gert upp á milli tónlistarstefna.
Miðað er við að nemendur, sem hefja nám við tónverið,
hafi lokið miðprófi í tónfræðagreinum. Sé þeirri
þekkingu ábótavant er boðið upp á sérstaka tíma í
tónfræðagreinum og skal miðprófi lokið innan tveggja ára.
Nemendur útskrifast með framhaldspróf í tölvutónlist
eftir að hafa fullnægt öllum þeim kröfum sem farið er fram
á samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.
Í tónverinu eru m.a. eftirtaldir möguleikar og aðstaða:
- Forrit til tónsmíða m.a Ableton Live, Logic Pro, Pro
Tools, Reaper, Max, PD, Sibelius, Max o.fl.
- Sýndarhljóðfæri (virtual instruments) m.a. frá Native
Instruments, Arturia, Korg ofl.
- Modular hljóðgervlar
- Surround hátalarakerfi
- Stafræn hljóðupptaka og -búnaður, og míkrófónar af
ýmsum stærðum og gerðum.
- Myndvinnsla og stafræn meðhöndlun myndefnis
- Hljóðhönnun - Stafræn og hliðræn (analog)
hljóðmyndun og hljóðvinnsla sem nýtist hvort heldur til
að búa til hljóð frá grunni eða meðhöndla áður
tilbúin hljóð á margvíslegan hátt.
- Stafræn eftirvinnsla á hljóði, t.d. klipping og hreinsun
á upptökum.
- Tónlistarforritun, þar sem hægt er að láta tölvu
stýra ýmsum ferlum við samningu og meðhöndlun tónlistar.
Frekari upplýsingar um tónverið má fá á skrifstofu
skólans. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir beint til kennara
tónversins, Haraldar V. Sveinbjörnssonar, Jespers Pedersen og
Ríkharðs H. Friðrikssonar, á netfangið tonver@tonlistarskoli.is
|
|
|