Úr aðalnámskrá tónlistarskóla:

Hlutverk tónlistarskóla er að búa nemendur undir nám í tónlist og skyldum greinum á háskólastigi, m.a. með því að veita þeim góða tæknilega tilsögn í hljóðfæraleik og söng, markvissa þjálfun í tónfræðagreinum og tækifæri til að koma fram

FORSÍÐA
SKÓLINN
Aðstaðan
Stjórn skólans
Skipulagsskrá
Ágrip af sögu
SKÓLADAGATAL
NÁMIÐ
TÓNVER
SKÓLAGJÖLD
KENNARAR
MYNDASAFN

 

Húsnæði og kennsluaðstaða

Tónlistarskóli Kópavogs býr við fyrirtaks aðbúnað til kennslu og tónlistarflutnings. Sérstaða skólans felst í því að hann deilir húsi með Salnum, þar sem fram fer reglulegt tónleikahald atvinnufólks við aðstæður sem eru eins og best verður á kosið.

Skólinn er hluti af Menningarmiðstöð Kópavogs sem er um 3000 fermetra sérhönnuð bygging á þremur hæðum og staðsett í Borgarholtinu við hlið Listasafns Kópavogs. Menningarmiðstöðin er annarsvegar safnahús og hýsir Náttúrfræðistofu Kópavogs og Bókasafn Kópavogs. Hins vegar er hún tónlistarhús og hýsir Tónlistarskóla Kópavogs og Salinn, 300 manna sérhannaðan sal fyrir tónlistarflutning.

Húsnæði Tónlistarskólans er á 2. og 3. hæð Tónlistarhússins, samtals 710 fermetrar að stærð. Kennslustofur eru 20 talsins, mismunandi að stærð í samræmi við breytilegar þarfir. Stofur til almennrar hljóðfærakennslu eru að stærðinni 11-25 fermetrar. Þá eru tvær 39 fermetra tónfræðakennslustofur, 46 fermetra samspilsstofa og 53 fermetra forskólastofa, auk 18 fermetra tónvers skólans sem er búið fullkomnum tækjum til tölvu- og hljóðvinnslu. Auk þessa eru hljóðfæra- og nótnageymsla, vinnustofa kennara, kaffistofa og skrifstofurými. Kennslustofur eru allar hannaðar með tilliti til hljómburðar. Þá er hljóðeinangrun mjög góð á milli stofa og innréttingum haganlega fyrir komið með tilliti til kennslunnar.

Salurinn, þar sem tónleikar skólans fara fram, er á 1. og hluta af 2. hæð hússins. Tréverk á veggjum Salarins er smíðað úr greni, sprottnu úr Skorradal og gólfefni er unnið að hluta til úr klöppinni, sem Tónlistarhúsið stendur á. Húsið er klætt utan með sérstaklega meðhöndluðum steinflísum, koparplötum og rekaviðardrumbum frá Melrakkasléttu. Arkitektar hússins eru Jakob E. Líndal og Kristján Ásgeirsson hjá ALARK. Um hljómburðarhönnun sá Stefán Guðjohnsen hjá Hljóðvist ehf.

Útibú í Fagraþingi

Frá haustinu 2016 hefur Tónlistarskólinn starfrækt útibú í húsnæði Fríkirkjunnar Kefas, Fagraþingi 2a í Vatnsendahverfi. Þar eru þrjú kennslurými og er aðstaðan sérstaklega ætluð fyrir nemendur í austustu byggðum Kópavogs. Í Kefas fer fram bæði forskólakennsla, hljóðfærakennsla og tónfræðakennsla.

 

Tónlistarskóli Kópavogs | Tónlistarhúsi Kópavogs | Hamraborg 6 | 200 Kópavogur | Sími 578 5700 | tonlistarskoli@tonlistarskoli.is